Innlent

Vilja aðgang að heilsufarsupplýsingum sínum á netinu

MYND/NFS

Rúmlega níu af hverjum tíu telja sig eiga að hafa aðgang að eigin heilsufarsupplýsingum á Netinu, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar frá Háskóla Íslands. Jafnmargir telja að forráðamenn eigi að hafa slíkan aðgang að upplýsingum um börn sín.

Notendur heilbrigðisþjónustu telja rafræna heilsufarsskrá góða hugmynd, samkvæmt rannsókninni. Tilgangur hennar var að kanna viðhorf Íslendinga til persónulegs aðgengis að heilsufarsupplýsingum og afla upplýsinga um helstu þætti sem óskað væri eftir í gagnvirkri þjónustu Tryggingastofnunar ríkisins á Netinu. Ennfremur að kanna hvort munur væri á sjónarmiðum almennings og örorkulífeyrisþega hvað þessa þætti áhrærir.

Mikill meirihluti þátttakenda vildu sjá eigin heilsufarsupplýsingar, ráða hverjir hafa aðgang að þeim og sjá hvenær réttur þeirra til bóta og afsláttarkorts verður virkur. Rannsóknin leiddi þó í ljós að færri örorkulífeyrisþegar hafa aðgang að Netinu heima en almennir notendur eða sjö af hverjum tíu öryrkjum á móti níu af hverjum tíu. Örorkulífeyrisþegar voru jafnframt eldri og meðvitaðri um réttindi sín til að skoða eigin heilsufarsupplýsingar, Rannsóknin var unnin af Gyðu Halldórsdóttur sem meistararitgerð í upplýsingatækni á heilbrigðissviði og er nánar greint frá henni á vefsíðu Tryggingastofnunar ríkisins www.tr.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×