Innlent

Flest börn ganga eða hjóla í skólann

Tæplega 80 prósent grunnskólabarna fara fótgangandi eða á hjóli í skólann sinn að vetri til en einungis rúmlega 20 prósent með einkabíl eða í strætisvagni. Þetta kemur fram í símakönnun sem IMG Gallup gerði fyrir Umhverfissvið Reykjavíkurborgar á ferðamáta grunnskólabarna í síðasta mánuði.

Langflest barnanna fara fótgangandi, eða tæp 76 prósent, en 19 prósent fara með einkabíl. Í frétt frá Umhverfissviði kemur fram að niðurstaðan komi töluvert á óvart því margir álykti út frá bílaþvögum fyrir utan skólana á morgnana að flestum börnum sé ekið í skólann. Úrtakið í könnuninni var 1400 manns í Reykjavík, svarhlutfall var 54 prósent og svöruðu þeir sem sögðu grunnskólabarn eða -börn búa á heimilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×