Innlent

Hávaði í mötuneytum geti leitt til heyrnaskaða

Hávaði í mötuneytum sumra grunnskóla í Reykjavík er slíkur að það getur leitt til þess að börn skaðist á heyrn. Nýjar hljómælingar sýna að mesti hávaði er töluvert yfir viðmiðunarmörkum Umhverfissviðs borgarinnar í að minnsta kosti einum skóla og nálægt mörkunum í tveimur öðrum.

Hollustushættir Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar gerðu í október síðastliðnum hljóðmælingu í spinningsölum fimm líkamsræktarstöðva og í mötuneytum fimm grunnskóla í borginni eftir að kvartanir höfðu borist um mikinn hávaða þar. Í ljós kom að hávaði í spinningsölum mældist minnien búist hafði verið við en í mötuneytum var hávaðinn aftur á mótimeirien menn héldu.

Gunnar Kristinsson, heilbrigðisfulltrúi hjá Hollustuháttum Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, segir töluverðan hávaða í mötuneytunum og hann sé of mikill að mati Umhverfissviðs, sérstaklega hvað varðar hæstu hljóðtoppa.

Í einu mötuneytanna reyndist háværasta hljóðbil 117 desíbil en samkvæmt viðmiðunarreglum Umhverfissviðs frá árinu 1998 má háværasta hljóðbil ekki fara yfir 110 desíbil. Gunnar segir að þegar hávaðinn sé orðinn svo mikill sé mikil hætta á því að krakkar verði fyrir heyrnarskerðingu og geti hlotið varanlegan skaða af. Þá voru háværustu hljóðbil í tveimur öðrum skólum mjög nærri 110 desíbilum.

Gunnar segir þetta alvarlegt og að frekari mælingar séu fyrirhugaðar af þeim sökum.Eftir áramót verði farið í hljóðmælingar í öllum mötuneytum í grunnskólunum og athugað hvernig ástandið sé. Það geti þó verið þannig að niðurstöðurnar séu ýktar þar sem mælingar hafi farið fram í þeim skólum þar sem kvartað hafi verið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×