Innlent

Óljóst um tildrög banaslyss

Brunnið flak bílsins á slysstað.
Brunnið flak bílsins á slysstað. MYND/KK

38 ára karlmaður lést þegar bifreið sem hann ók lenti út af Svalbarðsstrandarvegi við bæinn Sætún í austanverðum Eyjafirði snemma í morgun. Maðurinn var einn í bifreiðinni en vegfarandi tilkynnti lögreglu um alelda bifreið, utan vegar, þegar klukkan var 13 mínútur gengin í sex í morgun.

Slökkvilið og lögregla voru strax send af stað frá Akureyri en vegfarendur sem komu að slysinu reyndu að slökkva eldinn með handslökkvitæki en fengu ekki við neitt ráðið.

Ekki er hægt að birta nafn hins látna að svo stöddu en hann var búsettur á Akureyri; ógiftur en þriggja barna faðir.

Niðamyrkur var þegar slysið átti sér stað en vegurinn alauður sem að sumarlagi. Ekki þurfti að loka þjóðveginum vegna slyssins en beðið var með rannsókn þar til birti. Á meðan stóðu lögreglumenn vakt um slysstaðinn og beindu umferð frá vettvangi.

Tildrög slyssins eru ekki að fullu ljós en rannsókn stendur enn yfir. Að sögn lögreglunnar á Akureyri er ekki hægt að útiloka að ölvun hafi átt þátt í slysinu en að svö stöddu er heldur ekki hægt að fullyrða að svo sé.

Af ummerkjum á slysstað að dæma fór bifreiðin hægra megin út af þjóðveginum en engin bremsuför eru þó sýnileg. Framendi bifreiðarinnar stakkst inn í heimreiðina að Sætúni, sem liggur þvert á þjóðveginn, en við það kastaðist bifreiðina á loft og hafnaði á hvolfi hinum megin við heimreíðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×