Innlent

Villandi samanburður

Formaður Landssambands Eldri borgara sakar fjármálaráðuneytið um villandi samanburð í frétt sem birtist í vefriti fjármálaráðuneytisins, þar sem fullyrt var að ráðstöfunartekjur aldraðra væru hæstar á Íslandi af öllum Norðurlöndunum.

Fréttinn af samantekt Nordisk sosialstatistik á kjörum aldraðra var birt í vefriti fjármálaráðuneytisins síðastliðinn fimmtudag undir fyrirsögninni "ráðstöfunartekjur aldraðra á norðurlöndum hæstar á Íslandi." Í greininni er sagt frá því að skoðun norrænu stofnunarinnar hafi leitt í ljós að ráðstöfunartekjur eldri borgara á Íslandi, það er að segja tekjur eftir skatta, væru hæstar hér á landi af norðurlöndunum. Formaður landssambands Eldri borgara er ósáttur við samanburð stofnunarinnar og ekki síst að fjármálaráðuneytið skuli setja samanburðinn upp án þess að geta þess að í samanburðinum er fólk frá 65 ára aldri, en alls víðast á Norðurlöndunum er lífeyrisaldur miðaður við 65 ár en ekki 67 ár eins og á Íslandi. Það þýðir í raun að hluti Íslendinga í könnunni er enn á vinnumarkaði og skekkir hann því meðaltalið talsvert að mati formanns Landssambands Eldri borgara.

"Það sem við sjáum að þessu er fyrst og fremst þessi samanburður sem ekki stenst við frekari skoðun," segir Ólafur sem telur að þarna sé verið að steypa saman öldruðum á vinnumarkaði og þeim sem komnir eru á ellilífeyrisaldur. "Ellilífeyrirsþegar á Íslandi njóta þannig lægra lífeyris en aðrar norðurlandaþjóðir, og það er auðvitað sá samanburður sem skiptir máli."

Ólafur segir fréttir fjármálaráðuneytisins beinlínis villandi í þessu ljósi. Hann segir ljóst að munur á atvinnuþátttöku sé stórt atriði þegar verið sé að bera saman meðalráðstöfunartekjur. Þannig sé atvinnuþátttaka aldraðra hér á landi mun meiri en á Norðurlöndunum. Fulltrúar aldraðra hyggjast funda með forystumönnum ríkisstjórnarinnar á mánudag í næstu viku. Þar munu aldraðir að sögn Ólafs setja fram kröfur sínar um hærri lífeyrisgreiðslur og fleiri mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×