Innlent

Þingmaður myrtur

Líbanskur þingmaður var ráðinn af dögum í Beirút í morgun. Aðrir þingmenn ásaka Sýrlendinga um að bera ábyrgð á morðinu. Þingmaðurinn Gebran tueni lést ásamt þrem öðrum þegar bílsprengja sprakk nærri bifreið hans. Tíu manns slösuðust í sprengingunni, sem var mjög öflug og skemmdi nærliggjandi byggingar töluvert. Tueni er þekktur fyrir harða andstöðu við Sýrlendinga og því beinast böndin að þarlendum uppreisnarmönnum. Tueni sjálfur sagði í ágúst að hann væri á lista sýrlenskra uppreisnarmanna yfir menn sem ætti að myrða.

Annar þingmaður sem ekki hefur leynt andstöðu sinni við Sýrlendinga sagðist sannfærður um að stjórnvöld í Sýrlandi stæðu á bak við árásina í morgun. Tueni hafi goldið fyrir skoðanir sínar með lífi sínu. Stjórnvöld í Damaskus segjast hins vegar sannfærð um að andstæðingar þeirra hafi staðið fyrir tilræðinu, í því augnamiði að þeim yrði kennt um.

Önnur öflug sprenging varð við pósthús í miðborg Aþenu í Grikklandi í morgun. Þar slösuðust tveir lítillega. Töluverðar skemmdir urðu á pósthúsinu og gler úr rúðum dreifðist yfir stórt svæði. Flest bendir til að um hryðjuverk hafi verið að ræða, enda barst nafnlaus viðvörun til dagblaðs í Grikklandi um hálftíma áður en sprengjan sprakk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×