Innlent

Landspítalinn stóð við sinn enda samkomulagsins

MYND/Ljósmyndadeild

Landspítali – háskólasjúkrahús segist hafa staðið við sinn enda samkomulags við yfirlækni í æðaskurðlæknum og því hafi uppsögn hans verið réttmæt. Stefáni var lofað aðstöðu til að flytja þá starfsemi sem stofurekstri hans tilheyrði inn fyrir veggi spítalans og veittur rúmur tími til að hætta einkarekstri.

Stefán segir spítalann ekki hafa staðið við samkomulagið því hann hafi ekki skapað aðstöðu fyrir hann og því sé uppsögn hans ólögleg. Í yfirlýsingu spítalans kemur hins vegar fram að miklar breytingar og lagfæringar sem gerðar hafi verið á aðstöðu til æðaskurðlækninga á spítalanum samrýmist í öllum meginatriðum áformum um aukna starfsemi.

Engum sérfræðilæknum hefur verið neitað um aðstöðu á göngudeild og aðgengi að skurðstofu hefur verið meira en nægjanlegt fyrir lækna þessarar æðaskurðlækningadeildar. Lítil nýting skurðstofu deildarinnar hefur því leitt til þess að öðrum deildum hefur verið úthlutað aðgengi að henni sem nemur 1½ degi á viku. Biðlistar á deildinni eru engir.

Þá segir í yfirlýsingunni að yfirlæknar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi stýri sérgreinum og hafi þannig ríkum skyldum að gegna í samskiptum við annað starfsfólk og sjúklinga. Þá sé það ótvíræð afstaða yfirstjórnar LSH að þessum mikilvægum stjórnunarstörfum verði ekki gegnt með fullnægjandi hætti nema því aðeins að vera í fullu starfi á spítalanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×