Innlent

Bæta þarf kjör, aðbúnað og virðingu fyrir uppeldisstörfum

Rektor Kennaraháskóla Íslands segir að bæta þurfi kjör, aðbúnað og virðingu fyrir uppeldis- og umönnunarstörfum til að fjölga karlkynsnemendum við skólann. Vandinn verði ekki leystur með kynjakvóta einum og sér.

Runólfur Ágústsson, rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst, benti á það á karlaráðstefnu um jafnréttismál í síðustu viku að yfir hundrað körlum hefði verið vísað frá grunnámi við Kennaraháskólann, en 82 prósent nemenda skólans eru konur. Hann kom fram með þá hugmynd að skólinn tæki upp kynjakvóta til þess að fjölga karlkynsnemendum við skólann og þannig körlum í uppeldisstörfum sem fyrirmyndum fyrir unga drengi.

Ólafur Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands, segir skólann þurfa að hafna hundruðum umsókna á ári hverju, bæði frá konum og körlum. Þá hafi skólinn nú þegar ákveðinn kynjakvóta. Ef karl og kona hafi sama undirbúning og skólinn meti þau jafnhæf sér karlinn tekinn fram yfir. Hins vegar hafi ekki verið gripið til þess að taka inn lakari karl fyrir betri konu.

Ólafur segir kynjahlutföllin í skólanum þó ekki leyst með kynjakvótum, fleira þurfi til. Það þurfi að bæta kjör og aðbúnað fólks í uppeldis- og umönnunarstéttum og sömuleiðis virðinguna fyrir starfi þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×