Innlent

Þremur bílum stolið í viku hverri

MYND/Vísir

Þremur bílum er stolið í Reykjavík í viku hverri en lögreglan kemur aðeins höndum yfir einn af hverjum tíu sem stunda þessa iðju.

Lögreglan í Reykjavík tekur á ári hverju á móti fjölda tilkynninga um að bílum hafi verið stolið. Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir að það séu á milli 140 til 150 bílar sem hafi verið teknir á þessu ári. Rúmlega 90% af þeim skila sér aftur til eigenda.

Flestir bílarnir sem skila sér aftur eru óskemmdir eða lítið skemmdir svo sem aðeins með brotnum rúðum. Geir Jón segir að innan við 10% þjófanna hirði bílana en þeir sem geri það brytji þá jafnvel niður í varahluti og bílarnir hverfi að fullu.

Bílum er oftar stolið um helgar en á virkum dögum. Geir Jón segir að lögreglumenn gruni að þá sé oft um að ræða ölvaða einstaklinga sem koma að bílum í miðbænum og vantar að komast heim. Þeir taka því bílana til þess að komast á þeim heim og skilja þá eftir í nágrenni við heimili sitt.

Í flestum tilfellum er um eldri bíla að ræða og er kveikjulásinn slitinn í bílunum. Það þarf því ekki réttan lykil til að koma bílnum í gang og jafnvel er hægt að nota skrúfjárn til þess. Bílaþjófar nást sjaldan en þó gerist það stundum að þeir nást undir stýri á bílunum. Ofast finnist bílarnir hins vegar auðir. Geir Jón segir að það sé aðeins í um einu tilviki af tíu sem þjófarnir nást.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×