Innlent

Steypa stífluvegg í skammdeginu

Einhverjir harðsnúnustu byggingaverkamenn landsins steypa þessa dagana tvöhundruð metra háan og snarbrattan stífluvegg Kárahnjúkastíflu í fimbulkulda og skammdegi. Þetta eru einkum Kínverjar sem vinna störf sem hraustir íslenskir karlmenn hafa hrökklast frá.

Hliðin sem snýr að væntanlegu lón verður klædd steypukápu og þar er nú hver stund nýtt til að steypa. Við skulum athuga að við erum stödd langt inni á hálendi Íslands um hávetur upp undir Vatnajökli í nærri 600 metra hæð yfir sjávarmáli. Þegar við vorum á ferðinni var þarna átta stiga gaddur og það er ekki annað hægt en að dáðst að þeim mönnum sem starfa við hrikalegar aðstæður við að byggja upp stærsta mannvirki Íslands.

Í kuldanum er breitt yfir steypuna og hitablásarar dæla heitu lofti inn til að hún frjósi ekki um leið. Þetta eru aðallega kínverskir verkamenn sem vinna þarna utan á stíflunni en þeir kvarta ekki, þótt unnið sé á vöktum, jafnt nótt sem dag.

Sum störf verða þó ekki unnin úti í vetrarkuldanum og þá er gripið til þess að reisa bráðabirgðaskýli yfir vinnusvæðið eins og í botni yfirfallsrennu sem verið er að hreinsa. Þar gagnast ekki stórvirkar vinnuvélar heldur er notast við hjólbörur og handskóflur. En stundum verða veðrin slík að menn verða að gera hlé á vinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×