Erlent

Krefjast afsagnar Göran Persson

Frá hamfarasvæðunum í Suðaustur-Asíu í fyrra.
Frá hamfarasvæðunum í Suðaustur-Asíu í fyrra. MYND/AP

Mikið uppnám hefur orðið í sænskum stjórnmálum eftir að sérstök rannsóknarnefnd, sem fór yfir viðbrögð stjórnvalda vegna flóðbylgjunnar sem reið yfir Suðaustur-Asíu á annan dag jóla í fyrra, kynnti skýrslu sína í gær. Skýrslan fer hörðum orðum um viðbrögð ríkisstjórnarinnar og afsagnar forsætis- og utanríkisráðherra er nú krafist.

Ríkisstjórnin er harðlega gagnrýnd í skýrslunni fyrir aðgerðaleysi eftir að 30 þúsund sænskir ríkisborgarar lentu í hremmingum í kjölfar flóðbylgjunnar í Tælandi. Yfir 500 Svíar létust og 1500 slösuðust og er ríkisstjórnin sögð hafa brugðist allt of seint við til að koma fólki til hjálpar. Gagnrýnin beinist fyrst og fremst gegn Göran Persson forsætisráðherra og Lailu Freivalds utanríkisráðherra sem talin eru hafa tekið jólaleyfi sitt og skemmtanir fram yfir hagsmuni sænskra ríkisborgara á neyðarstund.

Í skýrslunni er meðal annars sagt frá samskiptum forsætisráðherra Svíþjóðar og Íslands vegna fluttnings slasaðra Svía frá Tælandi. Níu dagar liðu þó frá því flóðbylgjan reið yfir og þar til flugvél Loftleiða með læknum og hjúkrunarfólki flutti 85 slasaða til Svíþjóðar. Í millitíðinni hafði sænska utanríkisráðuneytið leytað eftir aðstoð annarra þjóða, meðal annars Bandaríkjanna, sem ekki gátu veitt aðstoð.

Stjórnarandstaðan krafðist í gær afsagnar forsætis- og utanríkisráðherra, og hið sama gera margir leiðarahöfundar sænskra dagblaða í dag. Persson segir þó að enginn muni segja af sér vegna málsins, en bað sænsku þjóðina afsökunar í gær á mistökum ríkisstjórnarinnar. Það er þó óvíst að það eitt muni duga til að lægja gagnrýnisraddir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×