Innlent

Allt stefnir í harðar deilur

Kaldbakur
Kaldbakur MYND/Vísir

Allt stefnir í harðar deilur milli sjómanna og útgerðar Kaldbaks og Harðbaks á Akureyri, vegna einhliða ákvörðunar útgerðarinnar um að fækka í áhöfn skipanna og stytta landlegu þeirra. Ákvörðun útgerðarinnar er í samræmi við samninga sem gerðir voru fyrir rúmu ári við áhöfnina á Sólbaki, sem vakti hörð viðbrögð verkalýðsforystu sjómanna.

Ný Sólbaksdeila gæti verið í uppsiglingu. Sjómenn á Kaldbaki og Harðbaki eru mjög óánægðir með breytingar á kjörum þeirra í takt við þá samninga sem sjómenn á Sólbaki hafa. Líkt og Sólbak gerir útgerðarfélagið Brim á Akureyri út Kaldbak og Harðbak. Á fundi með forsvarsmönnum Brims í dag var sjómönnunum á Kaldbaki og Harðbaki tilkynnt að fækkað yrði úr sextán í fjórtán í áhöfn. Þeim hafði þegar verið fækkað um tvo á hvoru skipi fyrr á árinu.

Konráð Alfreðsson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, segir sjómennina ekki una einhliða ákvörðun stjórnenda Brims. Eðlilegast hefði verið að semja við verkalýðsfélagið. Sjómennirnir telja að álag aukist og réttindi til landlegu skerðist. Auk þess verði ekki gert upp eftir hvern túr heldur mánaðarlega. Sjómenn, sem fréttastofan talaði við, búast við átökum en vildu ekki tjá sig undir nafni af ótta við uppsögn. Ekki hefur náðst í forsvarsmenn Brims vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×