Erlent

Þrýstingur eykst á Bandaríkjastjórn

Ísland er eitt margra ríkja þar sem flugvélar CIA hafa farið um.
Ísland er eitt margra ríkja þar sem flugvélar CIA hafa farið um. MYND/Stöð 2

Þrýstingur jókst enn á Bandaríkjastjórn í dag þegar breska stjórnin staðfesti að hún hefði farið formlega fram á upplýsingar um fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar CIA. Evrópusambandið er að kanna hvort aðildarríki þess, eða ríki sem sækjast eftir aðild, hafi leyft starfsemi ólöglegra fangelsa á vegum Bandaríkjastjórnar.

Öll spjót standa nú á leyniþjónustu Bandaríkjanna í Langley í Virginíu. Peter Goss, yfirmaður leyniþjónustunnar, hafnar því algjörlega að hans menn pynti fanga en neitar að ræða nánar um yfirheyrsluaðferðir. "Við heyjum stríð við hryðjuverk og okkur gengur ágætlega í þeirri baráttu," segir Goss. Hann segir ljóst að Bandaríkjamenn hafi hendur í hári nokkurra hryðjuverkamanna og fullyrðir að þeir fái réttláta málsmeðferð.

Ekki er ljóst hvaða réttláta málsmeðferð það er sem fangar leyniþjónustunnar njóta, en talið er að sumir þeirra hafi verið teknir fyrir allt að fjórum árum.

Franco Frattini varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sagðist í dag hafa rætt við innanríkisráðherra nokkurra aðildarríkja og þeir hefðu allir þvertekið fyrir að lönd þeirra hefðu unnið með bandarísku leyniþjónustunni við fangaflutninga.

Komið hefur í ljós að austurríski flugherinn sendi orrustuflugvélar til móts við bandaríska Herkúles flutningavél árið 2003. Bandaríska vélin fór yfir Austurríki frá Þýskalandi áleiðis til Aserbædjan. Yfirmaður austurríska flughersins sagði í dag að enginn sérstakur grunur hefði verið um að í vélinni væru fangar. Í ljós kom að um var að ræða flug einkaaðila á vegum Bandaríkjastjórnar - og bandaríska sendiráðið hét því að ganga úr skugga um að slíkar vélar yrðu rétt skráðar í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×