Innlent

Brasilíumenn krefjast launa

Brasilískir verkamenn hafa leitað á náðir Samiðnar til að innheimta tveggja mánaða ógreidd laun hjá fyrirtækinu Nýgifs. Þeir segjast hafa þurft að leita til íslenskra kollega til að brauðfæða sig á tíðum. Eigandi Nýgifs, sem réð þá hingað á grundvelli þjónustusamninga, segir að þetta sé haugalygi.

Alls starfa tíu Brasilíumenn fyrir fyrirtækið Nýgifs við að setja upp gifsveggi í nýbyggingar. Fimm þeirra hafa leitað á náðir Samiðnar og segja Nýgifs reyna að koma þeim úr landi hið fyrsta til að losna við að borga þeim ógreidd laun sem alls nema ríflega þremur komma þremur milljónum króna.

Nýgifs fékk Brasilíumennina til starfa hér á þjónustusamningi sem kveður á um að þeir þurfi að starfa að ákveðnum verkum fyrir ákveðið fyrirtæki ytra. Þeir segjast hins vegar hafa komið hingað á eigin vegum og hafa enga samninga, atvinnuleyfi né dvalarleyfi í höndunum.

Samiðn telur meintan þjónustusamning vart halda vatni:

Brasilíumennirnir segjast á tíðum hafa þurft að leita til íslenskra kollega til að brauðfæða sig. Nú hafa þeir fengið íslenska lögfræðinga til að leita réttar síns fyrir Héraðsdómi Reykjaness.

Eigandi Nýgifs, Magnús Guðmundsson, segir sögu Brasilíumannanna haugalygi. Hann segist hafa ráðið mennina á þjónustusamningi við fyrirtæki í Brasilíu og borgað þeim að fullu, 250 þúsund á mánuði hverjum. Þeir hafi hins vegar eyðilegat verk upp á 25 milljónir og því hafi hann rekið þá en ekki getað endurinnheimt laun sem hann hafði þegar greitt þeim. Eigi hann kvittanir til sönnunar þessu. Magnús segir að svo virðist sem að Trésmíðafélagið standi að aðför gegn fyrirtæki sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×