Erlent

Áttunda hvert barn vannært

Þurrkar og engissprettufaraldur lagði alla uppskeru í Afríkuríkinu Níger í rúst. Afleiðingarnar eru hungursneyð. Hungursneyðin hefur meðal annars leitt til þess að tólf prósent barna undir fimm ára aldri hafa þurft meðferð vegna vannæringar.

Níger er eitthvert fátækasta ríki heims og þegar uppskerubrestur bætist við sára fátækt eru afleiðingarnar einfaldar. Hungur og fátækt eru vítahringur sem erfitt er að rjúfa. Fátækt gerir fólki erfitt að bjarga sér svo að það selur jafnvel verkfæri og búfénað sem veldur aftur því að ekki er hægt að undirbúa næstu uppskeru.

Einna verst er ástandið í Maradi í suðurhluta landsins. Þar standa vannærð börn með ættingjum sínum í biðræðum, en ríflega tólf prósent allra barna í landinu undir fimm ára aldri hafa fengið meðferð vegna vannæringar.

"Allt að 20 prósent barna hér á við viðvarandi vannæringu að etja, það er eitt af hverjum fimm börnum í borg eins og Niamey þar sem ástandið ætti að vera miklu betra en í dreifbýli, þú sérð því hversu slæmt ástandið er þar," segir Isselmou Boukhary hjá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna í Níger.

Til að auka á vandann bætist við að stjórnvöld í Níger segja engan vanda til staðar. Engin hætta sé á matarskorti á ný og að stofnanir Sameinuðu þjóðanna reyni með viðvörunum sínum að sverta ímynd Nígers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×