Erlent

Teygja sig um Evrópu og Bandaríkin

Yfir hundrað kínversk börn og ungmenni, sem horfið hafa sporlaust frá Svíþjóð, eru ekki einsdæmi á Norðurlöndum. Þau eru aðeins hluti af því, sem virðist vera skipulegur mansalshringur, sem teygir anga sína um alla Evrópu og til Bandaríkjanna.

Fjórum kínverskum ungmennum sem fundust hjá parinu sem handtekið var í Stokkhólmi í gær hefur verið sleppt og eru þau komin aftur til Noregs, þaðan sem þau hurfu. Kínverska parið, sem grunað er um stórfellt mansal á kínverskum börnum og ungmennum, er áfram í haldi lögreglu og norska lögreglan yfirheyrir börnin, sem vilja þó ekkert segja. Umsjónarmenn þeirra lýsa hegðun sem yfirvöld í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku hafa orðið vör við: augljóst þykir að þau hyggist flýja, þeim eru útvegaðir peningar og farsímar og veittar leiðbeiningar um hvernig eigi að komast burtu. Yfirvöld segjast ráðalaus þar sem börnin og ungmennin séu saklaus fórnarlömb sem ekki sé hægt að læsa inni.

Og saga þessara barna og ungmenna er ætíð svipuð: þau komast frá Kína til höfuðborga Norðurlandanna þar sem þau biðja um pólitískt hæli og segja foreldrana látna. Þau eru vel klædd með jafnvirði þúsund evra í gjaldmiðli landsins og frelsiskort fyrir gemsa. Þau verða sér úti um gemsa og hverfa skömmu síðar sporlaust. Talið er að þau séu seld til annarra Evrópuríkja og Bandaríkjanna, oftar en ekki í vændi eða þrælavinnu og jafnvel að líffæri séu numin úr þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×