Erlent

Óttast um líf hundruða þúsunda

Vetur er genginn í garð á jarðskjálftasvæðinu í Pakistan, með snjó og kulda. Óttast er um líf hundruð þúsunda fórnarlamba skjálftans sem eiga sér ekkert skjól.

Á skjálftasvæðinu í Kasmír í dag er allt í einum lit, allt hvítt. Það er kominn vetur og snjór, með þeim afleiðingum að í það minnsta tvö fórnarlömb skjálftans létust. Hjálparstarfsmenn óttast að þetta séu fyrstu fórnarlömbin í annarri hrinu mannsláta á svæðinu, en þrjár og hálf milljón hefst við undir berum himni án skjóls og er því ekki undir það búin að takast á við vetrarhörkur. Hundrað eru á spítala með öndunarfærasýkingu.

Andrew Walton, flugherforingi og yfirmaður neyðarhjálparsveita Atlantshafsbandalagsins í Pakistan segir nauðsynlegt að koma neyðarskýlum sem fyrst til fólksins því ella deyi það. "Á þessum árstíma og undanförnum mánuðum ætti fólk að vera búið að koma sér upp vetrarforða. En vegna jarðskjálftans og einangrunarinnar sem það hefur búið við hefur fólk þurft að ganga á þau matvæli sem áttu að duga þeim í vetur.

"Við getum ekki lifað í tjöldum vegna þess að það er að verða svo kalt," segir Urdu Parveen, móðir sem hefur tjald yfir höfuðið, en segir það ekki duga til: "Tjöld leysa ekki vanda okkar í fjöllunum. Það á eftir að snjóa alltof mikið."

Og vetrarveðrið hamlar einnig flugi og hjálparstarfi: engar þyrlur hafa til dæmis flutt gögn til þeirra sem þarfnast þeirra síðan um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×