Erlent

Hundruð barna seld í vændi í Svíþjóð

Lögreglan í Svíþjóð handtók í gær kínverskt par sem er grunað um mansal í stórum stíl. Talið er að hundruð barna og ungmenna hafi verið seld í vændi og líffæri numin úr þeim.

Börnin og ungmennin sem um ræðir voru flest send í flóttamannabúðir í Gimo í Norður-Svíþjóð eftir komuna til landsins. Þar vöktu þau athygli varða og yfirvalda þar sem þau voru óhrædd og neituðu undantekningalítið að svara spurningum; sögðust vera komin til Svíþjóðar sem pólitískir flóttamenn og ættu enga ættingja. Eftir komuna til Gimo tóku ungmennin upp á því að fara í göngutúra og einn daginn komu þau ekki til baka. Yfirvöld hófu að kanna málið og handtóku í gær kínverskt par sem er talið höfuðpaurar smyglhrings sem flutti börnin frá Kína til Svíþjóðar.

Talið er víst að skipulagður glæpahringur sé á bak við mansalið og segja sænskir fjölmiðlar næsta víst að innan skamms verði flett ofan af kínverskri mafíu í Svíþjóð. Börnin voru vel klædd, með samskonar gemsa og með Schengen-áritun frá ítalska sendiráðinu í Búdapest, þó að þau afi aldrei komið til Ungverjalands.

Ungmennin fengu skilaboð með SMS-sendingum um hvernig þau ættu að komast frá Gimo, með lest og rútu. Talið er að þau séu nú á um alla Evrópu og í Bandaríkjunum, ýmist sem ólöglegt vinnuafl eða að þau hafi jafnvel verið seld í vændi og líffæri numin úr þeim. Engar vísbendingar eru um að þessi glæpahringur teygi anga sína hingað til lands en að sama skapi er ljóst að svipaðir hringar hafi reynt að nota Keflavíkurflugvöll sem millilendingarstað fólks á leið til áfangastaða vestan hafs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×