Erlent

Fjöldi árása í Írak undanfarinn sólarhring

Allt logar í óeirðum í Írak, í aðdraganda réttarhalda yfir Saddam Hússein, sem hófust á nýjan leik í dag. Öryggisgæsla í kringum réttarhöldin hefur verið snarhert.

Tveir breskir pílagrímar létust og fimm manns slösuðust þegar byssumenn gerðu árás á rútu suður af Baghdad í morgun. Fólkið í rútunni var á leið á trúarsamkomu utan við höfuðborgina, þegar árásin var gerð.

Þá eru minnst þrír bandarískir hermenn slasaðir eftir tvær bílsprengjuárásir í Baghdad í morgun. Í gærkvöldi féllu svo þrír í skotárásum uppreisnarmanna á tvær bifreiðar í vesturhluta höfuðborgarinnar. Einn þeirra sem féll í árásunum er sagður lífvörður Iyads Allawi, fyrrverandi forsætisráðherra Íraks. Þegar lögreglumenn komu að vettvangi sprakk svo bílsprengja, með þeim afleiðingum að tveir þeirra féllu og aðrir tveir slösuðust.

Réttarhöldunum yfir Saddam Hussein, fyrrverandi forseta Íraks, og sjö fyrrverandi samstarfsmönnum hans verður framhaldið í dag eftir sex vikna hlé. Öryggigæsla í tengslum við réttarhöldin hefur verið aukin stórlega og miðað við ástandið í Írak morgun er ekki vanþörf á.

Saddam og samstarfsmönnunnum er gefið að sök að hafa fyrirskipað morð á 150 sjítamúslimum eftir að reynt var að ráða Saddam af dögum árið 1982. Verði þeir fundnir sekir geta þeir átt yfir höfði sér dauðadóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×