Erlent

Frumbyggjar í Kanada fá fjárhagsstuðning

Stjórnvöld í Kanada og fulltrúar frumbyggja landsins hafa náð samkomulagi um 270 milljarða króna útgjöld til að berjast gegn fátækt meðal frumbyggja á næstu tíu árum.

Rúmlega einn af hverjum tíu Kanadamönnum telst fátækur en fjórir af hverju tíu frumbyggjum í Kanada. Þessi staðreynd var mönnum ofarlega í huga á fundi frumbyggja og stjórnvalda í Kanada. Og niðurstaða fékkst.

Á næstu tíu árum verður reynt að vinna gegn fátækt, meðal annars með uppbyggingu á sviði húsnæðismála, atvinnuvega, heilsugæslu og menntunar. Í Kanada er ein milljón manna sem telst til frumbyggja - metis indíána eða inúíta - eða alls rúmlega þjrú prósent þjóðarinnar.

Enn er hugsanlegt að samkomulagið verði að litlu eða engu. Framundan er atkvæðagreiðsla í kanadíska þinginu sem getur orðið stjórn Pauls Martins forsætisráðherra að falli. Og þá eru samningarnir við frumbyggja í uppnámi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×