Erlent

Eitur í vatnsbólum í Kína

Martröð allra borgarbúa er orðin að veruleika í milljónaborg í Kína. Þar er ekkert rennandi vatn eftir að eiturefni komust í ána sem liggur í gegnum borgina.

Það er ískalt í Harbin, fjögurra milljóna manna borg í norðvesturhluta Kína. Áin Songhua rennur lygn í gegnum borgina og að öllu jöfnu tryggir hún nægt vatn. En ekki í dag. Nú þurfa menn að drekka vatn úr flöskum og ekki hafa allir efni á því.

Þegar sprenging varð í verksmiðju í borginni Jilin fyrir tólf dögum komust hundrað tonn af bensóli út í ána. Bensól er eldfimur vökvi sem er notaður til að leysa fitu og getur valdið krabbameini. Vökvinn hefur undanfarna daga runnið niður eftir ánni og er kominn að Harbin. Eftir nokkrar vikur fer eitrið í gegnum rússnesku borgina Khabarovsk, sem er í um 700 kílómetra frá Harbin. Yfirvöld í Khabarovsk eru þegar farin að búa sig undir mengunarflauminn. Rússneskir og kínverskir embættismenn hafa rætt vandann en Rússar kvarta undan skorti á upplýsingum og vilja bætur frá Kínverjum.

Almenningur í Khabarovsk er þegar farinn að kaupa upp drykkjarvatn. Rannsókn er hafin á því hvort saknæmt athæfi hafi valdið sprengingunni. En á meðan leitað er að sökudólgum bora stjórnvöld eftir ómenguðu vatni. Brunnvatnið dugar samt hvergi til að veita drykkjarvatni til fjögurra milljóna manna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×