Erlent

Spánverjar kalla eftir aðstoð ESB vegna innflytjenda

Spænskir hermenn sem gæta girðingarinnar í Melilla og Ceuta á norðurströnd Afríku.
Spænskir hermenn sem gæta girðingarinnar í Melilla og Ceuta á norðurströnd Afríku. MYND/AP

Spánverjar hafa óskað eftir aðstoð Evrópusambandsins þar sem þeim gengur illa að hafa hemil á afrískum innflytjendum sem reyna að komast yfir landamæri Spánar í von um betra líf í Evrópu.

Innflytjendurnir reyna bæði að komast til Spánar með bátum og með því að klifra yfir rammgerða vírgirðingu á landamærum Spánar og Marokkós á norðurströnd Afríku, en Spánverjar eiga landspildur þar. Spænsk yfirvöld hafa bæði styrkt girðinguna og fjölgað hermönnum á svæðinu en það virðist ekki duga.

Hins vegar hefur marokkósk lögregla verið sökuð um að beita of miklu harðræði við að hindra för innflytjendanna sem flestir koma frá löndum sunnan Sahara-eyðimerkurinnar. Hafa ellefu innflytjendur látist á síðustu mánuðum, sumir þeirra eftir að lögregla skaut þá.

Yfirvöld í Marokkó eru nú farin að flytja fólk í unnvörpum frá landamærunum til að reyna að ná tökum á ástandinu og hafa farið fram á fjárhagsaðstoð frá Evrópusambandinu vegna þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×