Innlent

Öryrkjar ætla alla leið með skerðingarmál

Forystumenn Öryrkjabandalagsins hyggjast leita á náðir dómsstóla varðandi skerðingu bóta um áttatíu. Þeir segja nýjar vinnureglur Tryggingastofnunar stangast á við lög. Enginn ástæða sé til þess að grípa til jafn harkalegra aðgerða og nú er beitt gagnvart fársjúku fólki.

Eftir hávær mótmæli Öryrkjabandalagsins, við þeirri ákvörðun heilbrigðisráðherra og Tryggingastofnunar að greiða um áttatíu öryrkjum engar bætur í nóvember og desember sökum ofgreiðslna yfir árið, var ákveðið að greiða öryrkjunum grunnlífeyri að upphæð 22 þúsund krónur fyrir hvorn mánuð.

Þetta finnst forsvarsmönnum öryrkja ekki nóg þar sem venjan hafi verið að bætur séu ekki skertar meira en sem nemur 20% í hverrjum mánuði þar til skuldin við Tryggingastofnun er að fullu greidd. Segja forsvarsmenn öryrkja að þó grunnlífeyririnn verði greiddur sé enn verið að taka margfalt hærri upphæð af fólkinu en venjan er.

Sigursteinn Másson, formaður Öryrkjabandalagsins, segir að þar sem meðalbætur öryrkja eru nærri 80 þúsund krónum sé skerðingin mun meiri en 20%. Því hefur Öryrkjabandalagið nú ákveðið að vísa ágreiningnum við Tryggingastofnun til úrkskurðarnefndar almannatrygginga til að fá úr því skorið hvort nýtt vinnulag Tryggingastofnunar stangist ekki á við lagagrein almannatrygginga, sem segir að ekki megi skerða bætur meira en tuttugu prósent.

Segist Sigursteinn vonast eftir því að nefndin úrskurði í málinu í desember. Leggi hins vegar nefndin blessun sína yfir gjörning stjórnvalda í máli öryrkjanna verður farið lengra með málið - og þá fyrir dómstóla.

Það yrði þá í fimmta skiptið á jafn mörgum árum sem öryrkjar fara í mál við ríkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×