Innlent

20.000 manns eiga inneign hjá Tryggingastofnun ríkisins

Ástæða hárra bakreikninga til öryrkja frá Tryggingastofnun er í flestum tilvikum sú að þeir hafa vantalið tekjur sínar. Það eru hins vegar ekki bara sendir út bakreikningar, 20.000 manns eiga inneign hjá TR sem greidd verður út fyrir jól.

Við sögðum í gær frá Vali Höskuldssyni sem Tryggingastofnun sviptir bótum í nóvember og desember, og krefst auk þess að hann endurgreiði 500 þúsund krónur. Valur er einn af þeim 80 öryrkjum og ellilífeyrisþegum sem svipað er ástatt um.

Ágúst Þór Sigurðsson, framkvæmdastjóri lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar, segir að ef ofgreiðslan er 500.000, sé skýringin á því að annað hvort hafi viðkomandi einstaklingur ekki talið fram til skatts, hann hafi hærri fjármagnstekjur en hann gerði ráð fyrir eða að viðkomandi hafi ekki látið stofnunina vita um breytingar á tekju hvort sem það eru atvinnutekjur eða lífeyrissjóðstekjur. Ágúst segir að þetta séu helstu ástæðurnar fyrir að ofgreiðslur hafi verið að myndast. Hann minnir á að að bótaþegar beri sjálfir ábyrgð á því að réttar upplýsingar séu gefnar við útreikning bóta á hverjum tíma. Ágúst segir það eðlilegt að menn fái greiddar þær bætur sem þeir eigi rétt á, hvorki meira né minna. Það gleymist einnig stundum í umræðunni að það sé líka um að ræða vangreiðslur til einstaklinga sem verið sé að leiðrétta núna en alls fái um 20.000 manns greiddar inneignir og þær verði greiddar fyrir jólin. Ágúst segir að lögin séu sjálf í góðu lagi en menn þurfi að átta sig á mikilvægi þess að upplýsa Tryggingastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum þeirra, hvort sem um ræðir tekjur, hjúksaparstöðu eða annað sem kunni að hafa áhrif á bótaréttinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×