Innlent

Telur að vextir á íbúðalánum muni lækka þegar nær dregur áramótum

Vextir á íbúðalánum lækka aftur þegar nær dregur áramótum, að mati framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs, en sjóðurinn hækkaði vexti sína í morgun. Landsbankinn var fyrstur til að hækka vexti í þessari hrinu fyrir hálfum mánuði, en Sparisjóðirnir og Íslandsbanki fylgdu í kjölfarið í dag.KB-banki er að skoða málið.

Vextir á venjulegum húsnæðislánum Íbúðalánasjóðs, hækka úr 4,15% í 4,6%. Að auki verður síðan líka boðið upp á nýjan flokk lána, sem ekki er hægt að borga upp, án sérstakrar uppgreiðsluþóknunnar, en sá verður með lægri vöxtum, 4,35%.

Frá því að stýrivextir Seðlabankans hækkuðu síðast fyrir tæpum tveimur mánuðum, hefur verið ljóst að húsnæðisvextir myndu hækka enda hækkuðu langtímabréf í millibankaviðskiptum, þá í fyrsta sinn í langan tíma.

Guðmundur Bjarnason, framkvæmdarstjóri Íbúðalánasjóðs, segir að sjóðurinn taki mið af markaðinum á hverjum tíma. Hann segir að það hafi verið komin tími á að Íbúðalánasjóður kæmi inn á markaðinn en sjóðurinn væri þátttakandi í þróuninni á hverjum tíma og yrði það eflaust áfram. Íbúðalánasjóður fylgist með breytingum á markaðinum en mögulegt sé að sjóðurinn bjóði tvisvar í viðbót á þessu ári. Guðmundur gerir ráð fyrir fleiru en einu útboði og þá í desembermánuði. Hann þorir þó ekki að spá fyrir um vextina. Guðmundur segir að menn séu jafnvel að vona að vextirnir eða ávöxtunarkrafan fari niður aftur.

Vaxtahækkanir Seðlabankans þjóna þeim tilgangi að draga úr eftirspurn og þar með þenslu og verðbólgu. Allra síðustu vikur hefur mátt greina merki þess að nú dragi úr þenslu, nýjustu mælingar sýna verðhjöðnun og húsnæðisverð er farið að lækka, sérstaklega verð á sérbýli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×