Innlent

Yfir 300 milljónir fyrir umbúðirnar

Greiða þarf úrvinnslugjald af umbúðum frá áramótum, nær sjö þúsund tonnum af plasti og 27 þúsund tonnum af pappír og pappa.
Greiða þarf úrvinnslugjald af umbúðum frá áramótum, nær sjö þúsund tonnum af plasti og 27 þúsund tonnum af pappír og pappa.

Fyrirtæki landsins hefja um næstu áramót greiðslu úrvinnslugjald fyrir allar, plast-, pappa- og pappírsumbúðir utan um vörur þeirra. Búist er við að gjaldið nemi um 320 til 340 milljónum króna á ári.

Það er ekkert smáræði, allt sorpið sem fellur til á ári hverju, ekki síst umbúðir utan af neyslu almennings. Og frá og með næsta ári þarf að borga gjald af umbúðunum til að standa straum af kostnaði við endurvinnslu og endurnýtingu þeirra.

Fyrirtæki landsins eiga frá áramótum að greiða úrvinnslugjald af öllum umbúðum um þær vörur sem þau selja hérlendis. Alls er gert ráð fyrir að rukkað verði úrvinnslugjald fyrir þrjátíu og fimm þúsund tonn af umbúðum, að stærstum hluta pappír og pappa. Heildarinnheimtan er áætluð á bilinu 320 til 340 milljónir króna, eða rúmar þúsund krónur á hvert mannsbarn.

Peningarnir sem safnast með innheimtu úrvinnslugjalds verða notaðir til að greiða fyrir söfnun umbúða eftir notkun, svo sem á endurvinnslustöðvum, og flutning þeirra í endurvinnslu eða endurnýtingu. Í mars á næsta ári verður hafin söfnun plastumbúða til endurnýtingar, allt frá plasti utan af brettum niður í umbúðirnar af áleggi landsmanna.

Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir að úrvinnslugjaldið sé ekki það hátt að það hafi verulegan kostnaðarauka í för með sér fyrir fyrirtækin. Hann kveðst vona að gjaldið fari ekki út í verðlagið, lendi með öðrum orðum ekki á neytendum.

Lögin sem úrvinnslugjaldið byggir á eru reyndar ekki enn afgreidd. Lagafrumvarp þar um var tekið til fyrstu umræðu á þingi fyrr í haust og umhverfismálanefnd Alþingis fjallaði um það á fundi sínum í gær. Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður nefndarinnar, segir allt útlit fyrir að frumvarpið verði að lögum fyrir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×