Erlent

Leitað að ræningjum sem drápu lögreglukonu

MYND/AP

Mikil leit er nú gerð að ræningjum sem skutu lögreglukonu til bana í Bradford á Englandi í gær.

Það var um miðjan dag í gær sem lögreglunni barst neyðarkall sem talið var að rekja mætti til líkamsárásar. Tvær óvopnaðar lögreglukonur voru skammt frá vettvangi og voru sendar þangað. Þegar konurnar mættu á svæðið kom sannleikurinn í ljós.  Glæpagengi var að ræna ferðaskrifstofu og brást þegar í stað við komu lögreglukvennanna.

Önnur var skotin til bana og hin særð en gengið lét kúlum rigna yfir svæðið og flýði. Ræningjarnir þrír komust undan en þeirra er nú leitað og lögregla hefur nánast lokað af svæðinu til að leita vísbendinga. Það er fremur sjaldgæft að lögreglumenn séu drepnir með þessum hætti í Bretlandi, síðast var það árið 2001, og því hafa atburðirnir í Bradford vakið óhug. Æðstu yfirmenn bresku lögreglunnar hafa enda heitið því að hafa upp á ræningjunum og sjá til þess að þeim verði refsað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×