Erlent

Kjarnavopn á leiðinni?

Kjarnorkuver í Íran
MYND/AP

Íranar eru komnir skrefi nær því að framleiða auðgað úran, sem hægt er að nota til framleiðslu kjarnorkuvopna.Yfirvöld í Íran virðast kæra sig kollótt um þrýsting heimsbyggðarinnar, og segjast nú enn nær auðgun úrans en áður. Fremsti kjarnorkusérfræðingur landsins sagði í dag að áætlun um framleiðslu auðgaðs úrans gengi vonum framar. Sem fyrr neita Íranar því hins vegar algjörlega að hafa í hyggju að þróa kjarnavopn og segja úranið eingöngu ætlað til framleiðslu orku.

Bæði Evrópusambandið og Bandaríkin hafa ítrekað farið þess á leit við Írana að þeir láti af auðgun úrans, en án árangurs. Eftir ummæli forseta landsins nýverið um að réttast væri að þurrka Ísrael út af landakortinu hafa leiðtogar heimsins hver af öðrum keppst við að benda á hættuna á kjarnorkuvopnum í Íran.

Næsta fimmtudag sendir helsti kjarnorkusérfræðingur Sameinuðu Þjóðanna frá sér skýrslu, þar sem lagt verður til hvernig Sameinuðu Þjóðirnar skuli bregðast við þeirri stöðu sem uppi er í Íran.

Fastlega er búist við að í kjölfarið muni öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna álykta um að Íranir láti af auðgun úrans, eða verði að öðrum kosti beittir efnahagsþvingunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×