Erlent

Fleiri hyrðjuverkaárásir mjög líklegar í Bretlandi

Hver einasta borg í Bretlandi er í hættu, segir yfirmaður lögreglunnar í Lundúnum. Hann segir aðeins tímaspursmál hvenær næsta hryðjuverkaárás verði gerð.

Sir Ian Blair, yfirmaður lögreglunnar í Lundúnum, segir miklar líkur á að hryðjuverkamenn reyni að leika sama leik og í júlí síðastliðnum þegar fjórar sprengjur voru sprengdar í neðanjarðarlestum og strætisvagni borgarinnar og urðu yfir fimmtíu manns að bana. Blair segir mikilvægt að hryðjuverkamönnum mistakist en til þess þurfi allir þjóðfélagshópar að standa saman gegn þeim. Hann sagði Bretland enn vera ofarlega á lista hryðjuverkasamtakanna Al Qaida og að allar borgir landsins væru í hættu, Lundúnir þó einna helst. Lögreglustjórinn hvatti jafnframt til opinnar umræðu um störf lögreglunnar, sem hann sagði hafa orðið fyrir skakkaföllum eftir að lögreglumaður skaut mann frá Brasilíu til bana fyrir mistök á neðanjarðarlestarstöð í Lundúnum í júlí, skömmu eftir árásirnar. Yfir fimmtíu manns féllu í hryðjuverkaárásum. Og áhyggjur lögreglustjórans eru ekki að ástæðulausu. Því maður sem talinn er vera einn alræmdasti hryðjuverkamaður í Asíu, segir á myndbandi sem hann sendi frá sér í gær að Ástralía, Bandaríkin og Bretland verði skotmörkin í næstu árásum Jema Islamia samtökunum, sem tengjast Al Qaida. Maðurinn er malasískur flóttamaður og talinn vera forsprakki samtakanna. Honum er gefið er að sök að hafa skipulagt að minnsta kosti fjögur mannskæð sprengjutilræði gegn Vesturlandabúum á Indónesíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×