Innlent

Nefndarmenn fengu tíu milljónir króna

Tíu milljónir af söluandvirði Símans fóru til framkvæmdanefndar um einkavæðingu vegna nefndarlauna og ferðakostnaðar. Auk þess fékk Morgan Stanley- fjárfestingarbankinn greiddar 682 milljónir fyrir ráðgjöf sína. Í viðbót við tíu milljóna króna greiðslu til nefndarmanna og tæpra sjö hundruð milljóna til ráðgjafarfyrirtækisins voru greiddar rúmar sextíu milljónir fyrir lögfræðiráðgjöf og greinargerðir og tæpar tíu milljónir fyrir ýmsa aðra ráðgjöf og annan kostnað.

Í framkvæmdanefnd um einkavæðingu áttu sæti Jón Sveinsson formaður, Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, Sævar Þór Sigurgeirsson, löggiltur endurskoðandi, og Illugi Gunnarsson hagfræðingur. Starfsmenn nefndarinnar voru Stefán Jón Friðriksson, deildarstjóri í fjármálaráðuneytinu, og Jörundur Valtýsson, deildarstjóri í forsætisráðuneytinu.

Nefndarmenn sinntu starfinu samhliða fullri launaðri vinnu. Kostnaður vegna sölu Símans frá ársbyrjun 2004 til þess tíma er söluverð var greitt ríkinu nam samanlagt 786 milljónum. Sé tillit tekið til viðbótararðgreiðslu Símans í febrúar síðastliðnum, sem var 4,2 milljarðar, nemur hlutfallslegur sölukostnaður um 1,11 prósent af söluandvirði Símans, segir í skýrslunni.

Framkvæmdanefndin segir að sú niðurstaða verði að teljast hagstæð, sé miðað við innlend og erlend viðmið í því sambandi. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að framkvæmdanefndin hafi látið fara fram mat á fyrirtækinu sem var um fimmtán milljörðum undir söluverði, eða 52,4 milljarða króna að teknu tilliti til arðgreiðslu og skulda. Morgan Stanley, sem veitti nefndinni ráðgjöf um söluna, mat Símann hærra, á bilinu 57 til 68 milljarða.

Til viðmiðunar var söluverðið 66,7 milljarðar. Nefndin telur að sala Símans hafi gengið vel og ríkissjóður fengið afar viðunandi verð fyrir eign sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×