Erlent

Tvíburar með töglin og hagldirnar

Stjórnarmyndunarviðræður eru hafnar á ný í Póllandi eftir að Lech Kaczynski var kjörinn forseti um helgina. Sigur Kaczynskis styrkir mjög stöðu flokks hans í viðræðunum. Endanleg niðurstaða kosninganna liggur fyrir og hlaut Kaczynski 54 prósent atkvæða en Donald Tusk, keppinautur hans, 46 prósent.

Strax og úrslit voru ljós hófust stjórnarmyndunarviðræður flokka þeirra, Laga og réttlætis og Borgaravettvangsins, á nýjan leik eftir að hafa legið að mestu niðri vegna forsetakosninganna, en flokkunum vegnaði vel í þingkosningunum í síðasta mánuði.

Fyrir forsetakosningarnar hafði Jaroslaw Kaczynski, oddviti Laga og réttlætis og tvíburabróðir Lech, lýst því yfir að hann myndi ekki setjast í stól forsætisráðherra yrði bróðir hans kjörinn forseti. Því leiðir Kazimierz Marcinkiewicz, félagi hans, viðræðurnar fyrir hönd flokksins. Búist er við að erfiðar viðræður séu fram undan þar sem Lög og réttlæti hefur hert á kröfum sínum um íhaldssaman stjórnarsáttmála eftir sigurinn á sunnudag. Því á hinn frjálslyndi Borgaravettvangur hins vegar erfitt með að kyngja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×