Innlent

Heimsýn vill eflingu norræns samstarfs

Norrænu ríkin ættu að efla samstarf sitt en ekki láta draga sig inn í stofnun nýs stórríkis í Evrópu sem glímir nú við mikla kreppu. Þetta segja norrænar hreyfingar gegn aðild að Evrópusambandinu, en þær kynntu áherslur sínar í morgun í tengslum við fund Norðurlandaráðs hér á landi.

Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, og fjögur systurfélög í hinum norrænu ríkjunum, sem eru andvíg aðild að ESB, fagna því að Hollendingar og Frakkar hafi hafnað stjórnarskrá Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr á árinu. Félögin benda á að kreppan í sambandinu sé ekki aðeins bundin við stjórnarskrána heldur séu hún einnig á sviði efnahagsmála sem endurspeglist í deilum um fjárlög sambandsins.

Við þessar aðstæður telja samtökin fimm að Norðurlöndin eigi að einbeita sér að því að vinna betur saman og spyrna gegn því að Evrópusambandinu verði breytt í stórríki, nokkurs konur Bandaríki Evrópu. Ekki gangi að framselja vald til stofnana í Brussel eins og staðan sé nú og að evrópsk samvinna eigi frekar að fara fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Norrænu ríkin eigi að stuðla að friði, þróun og mannréttindum í heiminum.

Ragnar Arnalds, formaður Heimssýnar, bendir á að þótt Svíar og Danir séu í Evrópusambandinu sé feikileg andstaða við ýmsa þætti þess í löndunum og Danir hafi alla tíð verið gagnrýnir á ýmislegt innan sambandsins. Hann viðurkennir þó að ekki sé raunhæft að Svíar, Danir eða Finnar gangi úr ESB en þjóðirnar geti reynt að spyrna gegn myndun stórríkis. Þá verði Íslendingar og Norðmenn að gæta sín að dragast ekki inn í sambandið enda missi Íslendingar þá yfirráð yfir landhelgi sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×