Innlent

Norræn samvinna ef fuglaflensufaraldur brýst út

 

Heilbrigðisráðherrum Norðurlandanna hefur verið falið að finna hvar megi styrkja samvinnu norrænu landanna ef fuglaflensufaraldur brýst út á Norðurlöndum en yfirvöld í löndunum er öll vel á verði. Þetta kom fram á fundi forsætisráðherra norrænu ríkjanna í morgun.

Forsætisráðherrar norrænu landanna boðuðu til blaðamannafundar í Þjóðmenningarhúsinu í dag þar sem farið var yfir þau mál sem ráðherrarnir haf rætt á fundum sínum undanfarna tvo daga. Þar greindu ráðherrarnir frá því að þeir hefðu rætt sameiginleg viðbrögð við fuglaflensu. Hefur heilbrigðisráðherrum landsins verið falið að finna hvar megi styrkja samvinnuna á þessu sviði með það fyrir augum að koma í veg fyrir að fuglaflensa verði að faraldri á Norðurlöndum og hvernig brugðist verði við ef slíkt gerist. Mjög vel væri fylgst með þróun mála og ef til fuglaflensufaraldurs kæmi gæti gott samstarf á milli hinna norrænu ríkja verið afgerandi varðandi framleiðslu og drefingu bóluefna.

Svalbarðadeilan var einnig rædd á blaðamannafundinum, en eins og kunnugt er hafa nokkrar þjóðir, þar á meðal Íslendingar, Rússar og Færeyingar, mótmælt því að Norðmenn taki sér einhliða yfirráðarétt yfir hafsvæðum við Svalbarða sem ekki er norskt land. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagði Norðmenn og Íslendinga virða reglur innan hafsvæða hvorra annarra en að deilt væri um veiðar úr síldarstofninum við Svalbarða. Hann vonaðist til að samkomulag næðist við nýja ríkisstjórn Noregs um veiðar þar og sömuleiðis Rússa.

Halldór sagði hins vegar ljós að Íslendingar hefðu undirbúið mál sem hugsanlega verður höfðað fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. Hann vonaðist til að til þess komi ekki og að samkomulag náist.

Danir hafa verið í forsæti í norrænu ráðherranefninni á þessu ári en Norðmenn taka við af þeim um áramótin. Ákveðið hefur verið næsti fundur forsætisráðherranna verði á Svalbarða í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×