Erlent

Dönsk ungmenni í djörfum leik

Dönsk lestarfyrirtæki segja það sífellt færast í aukana að ungmenni stundi þann lífshættulega leik að standa sem lengst á lestarteinum þegar lest kemur æðandi. Á undanförnum þremur árum hefur fjöldi tilfella þar sem næstum hefur verið keyrt á fólk meira en tvöfaldast. Danska fréttablaðið Urban vakti athygli á málinu í gær og segir í frétt blaðsins að leikurinn gangi undir nafninu „kylling", eða „Kjúklingur". Ungmenni safnast saman við lestarteina og ögra hvert öðru til að standa sem lengst á teinunum á meðan lest nálgast. Hámarkshraði lesta í Danmörku er hundrað og áttatíu kílómetrar á klukkustund. Á heitustu sumardögum hefur þó þurft að lækka þann hraða niður í hundrað og tuttugu kílómetra á klukkustund á leiðum þar sem teinum hefur verið illa viðhaldið undanfarin ár. En sá hraðamunur gerir það svo sem ekkert minna hættulegt að standa fyrir framan níutíu tonna stállest. Ögrunarleikurinn lífshættulegi er dönskum lestarfyrirtækjum til ama og segir yfirmaður öryggismála hjá DSB við Urban-blaðið að þetta skapi sem dæmi ótta meðal lestarstjóra sem viti aldrei á hverju þeir eigi von. Hann segir ungmenninn leika sér með líf sitt því mjög erfitt sé að meta fjarlægð lestar á þetta miklum hraða. Dagblaðið Politiken skrifaði líka um málið í gær og segir að á aðeins þremur árum hafi orðið gríðarleg fjölgun á tilfellum þar sem lestum hefur „næstum verið ekið á fólk", eins og það er skilgreint í bókum lestarfyrirtækjanna. Árið 2002 voru slík tilfelli fimmtíu og fjögur en það sem af er þessu ári eru þau orðin hundrað tuttugu og fjögur. Í tuttugu og eitt skipti á þessu ári hefur lest verið ekið á manneskju. Bæði lestarfyrirtæki Danmerkur, DSB og Banedanmark íhuga nú kynningarherferð til að stemma stigu við þessum hættulega leik. Hugmyndin er að dreifa bæklingum til farþega og hengja upp veggspjöld þar sem staðreyndirnar „90 tonna stál" og „180 kílómetrar á klukkustund" eiga að koma skilaboðunum áleiðis, og fá dönsk ungmenni til að láta af háskaleiknum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×