Erlent

Hafast við í neyðarskýlum

Hrikalegum náttúruhamförum í heiminum virðist ekki ætla að linna. Fellibylurinn Wilma skall á Júkatan-skaga undir kvöld. Wilma er öflugasti stormur sem myndast hefur á Atlantshafi frá því mælingar hófust, en var orðin fjórða stigs fellibylur þegar hún kom að landi. Hundruð þúsunda hafa yfirgefið heimili sín auk þess sem hótel voru rýmd og ferðamönnum í þúsundatali komið fyrir í neyðarskýlum. Wilma skall á mexíkósku eyjunni Cozumel síðdegis í dag og síðan er reiknað með að hún þræði strandlengjuna norður og austur á bóginn og nái ströndum Flórída á sunnudag. Rafmagn fór víða af, yfirborð sjávar hækkaði um fjóra til fimm metra og úrkoman var tugir sentimetra. Þessi svæði eru mjög vinsæl af ferðamönnum allan ársins hring og talið er að um 200 þúsund ferðamenn hafi pakkað niður og haldið heim undan Wilmu. Hótel voru samt rýmd í hundraðatali og ferðamönnunum komið fyrir í neyðarskýlum - ekki voru þó allir ánægðir með aðbúnaðinn þar. Mikill viðbúnaður er vegna Wilmu - verið er að flytja allt að hálfa milljón manna frá heimilum sínum bara á Kúbu en þrettán manns hafa þegar látist af völdum fellibylsins á Haítí og Jamaíka. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir á Júkatanskaga og í Flórída, en þar eru íbúar viðbúnir hinu versta, því Wilma gæti sótt í sig veðrið á leiðinni yfir. Íbúar við Mexíkóflóa eru margir orðnir langþreyttir á þessari fellibyljatíð, en fellibyljirnir Dennis, Ríta og Katrín hafa leikið mörg svæði grátt fyrr á árinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×