Innlent

Aragrúi óþekktra barna

Gagnagrunnur Interpol geymir netmyndir af meira en 20.000 börnum sem beitt hafa verið kynferðislegu ofbeldi. Aðeins 350 þessara barna hafa fengið hjálp. Í fæstum tilvikum hafa kennsl verið borin á börnin. Þetta kemur fram í stöðuskýrslu um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum í tengslum við netið sem var birt í gær á vegum Barnaheilla - Save the children á Íslandi. Barnaheill vann að skýrslunni ásamt systursamtökum sínum í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Ítalíu en samtökin berjast fyrir réttindum barna. „Meiri áherslu þarf að leggja á að finna þessi börn og við þurfum að finna leiðir til þess að hjálpa þeim,“ segir Kristín Jónasdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla. „Þessar myndir lenda á netinu og glæpurinn verður landamæralaus sem einfaldar ekki málin.“ Skýrslan bendir á nauðsyn þess að samræma lögin betur á milli landa og bendir Kristín á að seinustu tvö árin hafa lögregluyfirvöld margra landa unnið saman og tekist að handtaka fjölmarga framleiðendur, dreifingaraðila og notendur barnakláms.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×