Innlent

Íslendingur lést í Danmörku

Íslendingur lét lífið á aðfaranótt miðvikudags í bílslysi við bæinn Thisted í Danmörku þar sem hann bjó. Hann hét Bjarni Þórir Þórðarson og var 39 ára gamall. Slysið bar að með þeim hætti að hvellsprakk á bíl mannsins, sem þá missti stjórn á honum. Bíllinn valt og rann á hvolfi á tré. Þórdís Þórðardóttir, systir Bjarna, hefur eftir lögreglu í Danmörku að talið sé að hann hafi misst meðvitund við veltuna. Hún segir vin Bjarna hafa látið fjölskylduna vita, sem síðan hafi leitað eftir upplýsingum hjá lögregluyfirvöldum ytra. Hún segir beðið með að senda út dánartilkynningu þar til búið sé að bera kennsl á lík Bjarna með formlegum hætti. "Hann var vinmargur þarna úti og þeir hafa, líkt og gjarnan er gert, lagt bæði blóm og kerti á staðinn þar sem bíllinn fór á tréð," segir hún. Bjarni var þekktur undir heitinu Bjarni móhíkani, en hann öðlaðist nokkra frægð þegar hann kom ungur fram í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík með hljómsveitinni Sjálfsfróun. Bjarni hefur verið búsettur í Danmörku síðastliðin fjögur ár. Hann lætur eftir sig þrjú börn, tólf ára son og ellefu ára dóttur sem búa á Eyrarbakka og sex ára gamlan son búsettan á Akureyri.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.