Innlent

Hannes selur hús sitt á Hringbraut

"Ég bara seldi húsið mitt til þess að eiga fyrir lögfræðikostnaði og hugsanlegum sektum, það er ekkert leyndarmál" segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Dómstóll í Englandi hefur dæmt hann til þess að greiða Jóni Ólafssyni, viðskiptamanni þar í landi, tólf milljónir króna í skaðabætur fyrir meiðandi ummæli Hannesar um Jón á vef háskólans. „Ég sagði bara það sem satt var að því hafi verið haldið fram að Jón hafi stundað ólögmæta viðskiptahætti á sínum tíma," segir Hannes.Hjá Fasteignamati ríkisins fengust þær upplýsingar að fasteignafélagið Skipholt ehf. hafi keypt húseignina að Hringbraut 24 af Hannesi þann fyrsta september síðastliðinn. Kjartan Gunnarsson,, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, er aðaleigandi Skipholts. „Ef ég þarf að borga þessar tólf milljónir þá borga ég þær bara," segir Hannes. „Ef Hannes mætir ekki til sýslumanns á morgun þá verður hann handtekinn," segir Jón Ólafsson viðskiptamaður sem fer fram á fjárnám í eigum Hannesar ef hann reynist ekki vera borgunarmaður. Hann segist ekki muni hika við að óska eftir því að Hannes verði handtekinn. Fyrirhugað fjárnám verður verður tekið fyrir hjá sýslumanni í dag. Hannes segir að sér þyki undaralegt ef hægt sé að kæra sig fyrir ummæli á Íslandi um íslenskan mann í landi þar sem löggjöfin sé mun strangari og bjóði upp á hærri sektir en gerist hér á landi. Hann hyggur að með þessu sé opnað fyrir þann mögulega að hægt sé að þagga niður í hverjum þeim sem tjá sig um „ríka menn í útlöndum" eins og hann orðar það. Hann telur að það geti orðið til þess að setja tjáningarfrelsinu skorður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×