Erlent

Samþykktu viðræður við Tyrki

Austurríkismenn gáfu eftir nú undir kvöld og samþykktu að aðildarviðræður Evrópusambandsins við Tyrki gætu hafist. Þeir lýstu því yfir í gær að þeir gætu ekki samþykkt að Tyrkland yrði fullgildur meðlimur, of margir Evrópubúar séu á móti því og nauðsynlegt sé að hlusta á borgarana. Tyrkir brugðust ókvæða við en undirbúningur fyrir viðræðurnar hefur staðið árum saman. Formlegar aðildarviðræður áttu að hefjast klukkan þrjú síðdegis í Lúxemborg, en á fundi utanríkisráðherra aðildarlanda Evrópusambandsins í nótt, tilkynntu Austurríkismenn að þeir gætu ekki stutt fulla aðild Tyrklands að sambandinu. Tyrkir hafa beðið árum saman eftir því að formlegar viðræður gætu hafist og voru fjúkandi reiðir Austurríkismönnum. Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, segir að ef Evrópusambandið vill vera stórveldi og ef það vill koma í veg fyrir árekstra ólíkra menningarheima sé nauðsynlegt að mynda bandalag ólíkra menningarheima. Þau öfl sem vilji ekki að Tyrkjir verði hluti af Evrópusambandinu séu þau sömu og vilji ekki bandalag ólíkra menningarheima. Mikill meirihluti Austurríkismanna er á móti aðild Tyrklands, samkvæmt skoðanakönnunum, mest vegna menningarmunar, en Tyrkir telja 72 milljónir og eru flestir múslímar. Kannanir benda til þess að rétt rúmur meirihluti íbúa Evrópusambandsins sé á sama máli. Það breytir ekki þeirri staðreynd að það var löngu ákveðið að hefja viðræður við Tyrki í dag, og markmiðið er að Tyrkir verði á endanum fullgildir meðlimir Evrópusambandsins.   Svo virðist sem að Plassnik hafi loks gefið eftir nú undir kvöld, en meginkrafa Austuríkismanna var að þeim möguleika væri haldið opnum að Tyrkir fengju einhvers konar tvíhliða samning, en yrðu ekki formlegur hluti sambandsins. Armenar eru sú þjóð sem styðja Austurríkismenn harðast, en þeir eru ósáttir við að Tyrkir hafi aldrei viðurkennt fjöldamorðin í Armeníu árið 1915 sem tilraun til þjóðarmorðs og vilja ekki sjá að Tyrkland verði hluti af Evrópusambandinu. Fjöldi Armena mætti fyrir utan fundarstað í Lúxemborg í dag til að mótmæla viðræðunum. En þótt viðræðurnar hefjist á morgun, þá er það einungis fyrsta skrefið á langri leið, því búist er við að viðræðurnar taki hátt í áratug.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×