Innlent

Liggur undir skemmdum

Ríflega þriðjungur af kornuppskeru bænda á Eyjafjarðarsvæðinu liggur undir skemmdum vegna snjókomu norðanlands um síðustu helgi. Samanlagt tjón eyfirskra kornbænda vegna þessa gæti orðið um 20 milljónir króna en bændur eiga enn eftir að skera um 180 hektara af þeim 500 hekturum sem þeir sáðu í. Ingvar Björnsson, ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar, segir að sökum ótíðar í vor hafi kornakrar sprottið seint í sumar og því hafi skurður ekki hafist fyrr en um síðustu mánaðamót. "Ef veður skánar á næstu dögum er hugsanlegt að bjarga megi hluta þess korns sem eftir á að skera á Eyjafjarðarsvæðinu en þó líklega aldrei meira en helmingnum. Ef ekki rætist úr tíðinni mun allt óskorið korn eyðileggjast," segir Ingvar. Almennt eru bændur á Eyjafjarðarsvæðinu ekki tryggðir fyrir skemmdum á uppskeru og í ofanálag var kornspretta eyfirskra bænda minni í ár en undanfarin tvö ár. "Minni sprettu má annars vegar rekja til þurrka og kulda í maí og hins vegar til mikillar úrkomu og sólarleysis í águst," segir Ingvar. Leita þarf aftur til ársins 1979 til að finna viðlíka ótíð norðanlands og í haust en þá var einnig mikil úrkoma í ágúst og langvarandi kuldi með snjókomu í september. Kornrækt hefur vaxið jafnt og þétt á Íslandi frá árinu 1990 og í vor var sáð í um 3.000 hektara á landinu öllu. Nánast allt það korn sem íslenskir bændur rækta fer til fóðurgerðar nema hvað einn framleiðandi hefur ræktað lífrænt korn til manneldis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×