Innlent

Hótaði að birta gögn um Baug

Jónína Benediktsdóttir krafðist þess að Jóhannes Jónsson í Bónus keypti líkamsræktarstöðina Planet Pulse af sér ella myndi hún birta gögn sem hún hefði í sínum fórum um Baug. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Fréttablaðið birtir í dag tölvupóst sem Jónína sendi Tryggva Jónssyni, þáverandi forstjóra Baugs. Þar segir hún orðrétt: „Ég er með tuttugu og fimm skjöl sem geta flett ofan af ykkur skítnum og sett af stað mestu rannsókn í viðskiptalífi Íslands.“ Hún sagðist myndu birta þessi gögn ef fyrirtækið greiddi henni ekki peninga sem hún taldi sig inni hjá því. Í tölvupóstinum frá Jónínu segir orðrétt: „Þetta er ekki hótun heldur sjálfsbjargarviðleitni þriggja barna móður sem á að lýsa sig gjaldþrota á morgun en átti tvö hundruð milljónir þegar hún þvældist inn í mestu drullusokkafjölskyldu í heimi.“ Að því er fram kemur í Fréttablaðinu svaraði Tryggvi samdægurs og sagði Jónínu að ef hún teldi að einhver lög hefðu verið brotin væri það eina rétta að greina yfirvöldum frá því. Tryggvi sagði að sjálfum væri sér ekki kunnugt um svik eða fals og varaði hana við að treysta upplýsingum frá Jóni Gerald Sullenberger þar sem hann væri í miklu ójafnvægi og hefði tvívegis hótað Jóni Ásgeiri Jóhannessyni lífláti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×