Innlent

Taka 70 töflur af parkódíni á dag

Einn og sami neytandinn notar allt að sjötíu parkódíntöflur á dag. Verkjalyfin parkódín og íbúkód verða vegna mikillar neyslu fíkla tekin úr lausasölu og verða því einungis seld gegn framvísun lyfseðils. Mímir Arnórsson, lyfjafræðingur hjá Lyfjastofnun, segir breytinguna vera samkvæmt tillögu vinnuhóps á vegum Lyfjastofnunar og Landlæknisembættisins sem fjallaði um vandamál tengd lausasölu verkjalyfja sem innihalda kódein. Mímir segir þessa miklu neysla parkódíns stafa af því að líkaminn myndi þol gegn efninu og þurfi þess vegna stærri og stærri skammta. Mímir segir að lausasala parkódíns og íbúkóds hafi aukist mikið frá því að lyfin komu á markað 1989. Neysla hér er margfalt meiri en til að mynda í Danmörku þar sem verkjalyf með kódeini fást einnig í lausasölu. Í mörgum Evrópulöndum er ekki hægt að kaupa verkjalyf sem innihalda kódein nema gegn framvísun lyfseðils. "Kódeinið er eitt þeirra efna sem unnin eru úr ópíumvalmúa," segir Mímir. "Um tuttugu efni eru unnin úr honum og er morfín þeirra þekktast." Kódein breytist að hluta til í morfín í líkamanum. Mímir bendir á að gögn frá SÁÁ sýni að innlagnir á Vog vegna kódeinfíknar hafi verið nánast óþekktar fyrir 10 árum en séu nú yfir 70 á ári. Svipað gildi um innlagnir vegna morfínfíknar sem einnig hafi verið nánast óþekktar fyrir 10 árum en eru nú milli 150 og 200 á ári. Þessar upplýsingar veki grunsemdir um að vaxandi lausasala kódeinlyfja sé orsök hratt vaxandi fjölda ópíumfíkla. "Ég vil vekja athygli á því að þessi verkjalyf verða fáanleg áfram," segir Mímir. "En eftir næstu mánaðamót verður ekki hægt að kaupa þau nema út á lyfseðil."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×