Innlent

Veður þegar orðið vont víða

Nú þegar er veðrið orðið vont í nokkrum landshlutum og því er spáð að mjög hvasst geti orðið í hviðum víða um land síðar í dag. Lögreglan í Reykjavík varar við ferðum á Sandskeiði vegna slæms veðurs. Einkum er mælst til þess að ekki sé farið þar um á vanbúnum bílum. Á Sandskeiði er skyggni nánast ekkert, mikið hvassviðri og hálka.  Þá er er óveður á Klettshálsi á Vestfjörðum og heiðin orðin kolófær, sömuleiðis Hrafnseyrarheiði og Eryarfjall og óveður og hálka eru á Gemlufallsheiði. Vetrarfæri er víðast hvar á Norðurlandi og var víða verið að hreinsa vegi í morgun og er Lágheiði ófær. Víða er hálka á Austfjörðum og snjórþekja á fjallvegum líkt og á Vesturlandi og á Suðurlandi er krapi á veginum á milli Kirkjubæjarklausturs og vestur fyrir Vík í Mýrdal. Spáð er versnandi veðri norðvestan- og suðaustanlands þegar líður á daginn og sömuleiðis hvassviðri á miðhálendinu. Þá mega vegfarendur eiga von á snörpum hviðum sunnan Vatnajökuls í dag, á Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli, á Holtavörðuheiði og á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þar geta kviðurnar farið langt yfir 20 metra á sekúndu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×