Innlent

Aflaverðmætið um tveir milljarðar

Fjölveiðiskip Samherja, Baldvin Þorsteinsson EA 10 og Vilhelm Þorsteinsson EA 11, komu með fullfermi af frystum síldarflökum til Akureyrar á föstudag en um þrír mánuðir eru síðan skipin komu síðast til hafnar á Íslandi. Skipin hafa verið að veiðum á norsk-íslenskri síld frá 10. maí, aðallega utan íslensku lögsögunnar, og var aflinn unninn um borð. Bæði skip hafa nú fullnýtt aflaheimildir sínar úr norsk-íslenska síldarstofninum og er aflaverðmætið um tveir milljarðar króna. Baldvin Þorsteinsson kom með 640 tonn af frystum síldarafurðum úr síðustu veiðiferðinni og um borð í Vilhelmi Þorsteinssyni voru 592 tonn. Samanlagður afli beggja skipa á vertiðinni var 39 þúsund tonn af síld úr sjó eða um 20 þúsund tonn af frystum afurðum. Til að fagna heimkomu skipanna, og góðri síldarvertíð, fóru á þriðja hundrað boðsgestir í siglingu með skipunum um Eyjafjörð í gær og var hádegisverður snæddur um borð í boði Samherja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×