Innlent

Lyf með kódíni úr lausasölu

Parkódín og önnur lyf með kódíni verða tekin úr lausasölu eftir rúma viku eða þann 1.október. Læknar og lyfjaverslanir hafa fæstar verið látnar vita hvað dag bannið tekur gildi. Það hefur verið í umræðunni um nokkurt skeið að taka lyf eins og parkódín, parkódínstíla og íbúkót úr lausasölu þar sem þau innihalda efnið kódín. Kódín er ávanabindandi og vegna þess hefur aðeins verið leyfilegt að selja eina pakkningu af parkódíni í einu en í henni eru tíu töflur. Lyf eins og parkódín sem nú fæst í lausasölu í takmörkuðu magni er eftirlitsskylt ef heildarmagn kódíns í pakkningunni fer yfir eitt gramm en í hverri parkódíntöflu eru 10 millígrömm. Jón Þórðarson, lyfjafræðingur í Lyfjum og heilsu í Mjóddinni, segist ekki hafa fengið neina tilkynningu frá Lyfjastofnun um hvenær nákvæmlega eigi að hætta lausasölu parkódíns. Hann telur bannið geta skipt fjárhagslegu máli fyrir apótekin en það eigi eftir að koma betur í ljós, hugsanlega og líklega geti stór hluti sölunnar færst yfir á önnur verkjalyf.  Aðspurður hvort það skipti engu máli þótt apótekin fái tilkynningu um að hætta sölu parkódíns með nokkurra daga fyrirvara segir Jón að verið sé að reyna að stýra lagerhaldi í búðunum og því skipti það auðvitað máli. Ef fyrirvarinn verði stuttur segi það sig sjálft að apótekin þurfi að fá hjálp frá heildsölum að losna við lagerinn. Nokkur fjöldi fólks hefur fíkn í kódín sem er stór ástæða þess að banna á lausasölu lyfsins. Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir að fyrir fólk almennt sé það ekki heilsusamlegt að taka of mikið af slíkum lyfjunum og með lausasölunni hafi neysla efnanna aukist verulega. Margir glímir við vanda án þess að talað sé um kódínfíkn en hún hafi þó látið á sér kræla. Um 70 manns komi á Vog ár hvert vegna kódínfíknar. Kódínfíkill hefur vímusókn í kódín auk þess sem hann glímir við félagslegan vanda vegna neyslu sinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×