Innlent

Skiptar skoðanir um sænsku leiðina

Vonast er til að nefnd um mismunandi löggjöf um vændi, klámiðnað og mansal í Evrópu muni skila af sér niðurstöðum fyrir lok mánaðarins. Líklegt þykir að nefndin skili af sér fleiri en einu áliti þar sem skiptar skoðanir eru innan hennar um ágæti sænsku leiðarinnar um að gera kaup á vændi refsiverð. Í nóvember í fyrra skipaði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra starfshóp sem átti að kynna sér reynslu af mismunandi löggjöf um vændi, klámiðnað og mansal í Evrópu. Sérstaklega átti nefndin að kynna sér reynslu Svía af löggjöf sem gerir kaup á vændi refsiverð og meta kosti þeirrar löggjafar og galla. Samkvæmt skipunarbréfi nefndarinnar á hún að bera reynsluna af mismunandi viðhorfum og löggjöf í nágrannalöndunum saman við aðstæður hér á landi. Í nefndinni sitja alþingismennirnir Kolbrún Halldórsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Gunnar Örn Örlygsson, Jónína Bjartmarz og Ásta Möller. Formaður hennar er Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×