Innlent

Tugir húsa rýmd á Ísafirði

Rýma þarf tugi heimila á Ísafirði meðan verið er að sprengja stórgrýti í Gleiðahjalla sem er fyrir ofan bæinn. "Þetta eru fimmtíu steinar sem þarf að sprengja og við gefum okkur fjóra daga til verksins," segir Halldór Halldórsson bæjarstjóri en byrjað var að sprengja í gær. Hann segir ennfremur að sprengt sé frá klukkan níu til þrjú en þá eru flestir íbúanna í vinnu og því verður röskun minni en ella. Íbúar við Urðarveg þurftu að vera að heiman í gær en á fimmtudag reynir á þolinmæði íbúanna við Hjallaveg. Halldór segir að í framhaldinu verði sprengt fyrir ofan bæinn á Suðureyri. "Þetta eru einfaldlega fyrirbyggjandi aðgerðir sem við verðum að gera á nokkura ára fresti þótt almennt sé talið mjög ólíklegt að grjót nái í byggð á þessum slóðum," segir Halldór. Þó var mörgum íbúum brugðið fyrir sex árum þegar grjót komu rúllandi niður hlíðina en stoppuðu um 200 metra fyrir ofan efstu hús.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×