Innlent

Grjót sprengt fyrir ofan Ísafjörð

Sprengingar hófust í Gleiðarhjalla fyrir ofan Ísafjörð í morgun og munu standa fram á fimmtudag. Íbúarnir í tveimur efstu götunum á Ísafirði eru beðnir um að vera ekki heima í dag og næstu daga. Í dag og á morgun eru það íbúar við Urðarveg sem eru beðnir um að vera ekki heima og síðar í vikunni verða íbúar við Hjallaveg beðnir um það sama. Halldór Halldórsson bæjarstjóri segir að enginn verði var við sprengingarnar enda sé stefnt að því að sprengja grjótið þannig að það molni á staðnum. Það sé þó ekki nauðsynlegt að sprengja grjótið því 99 prósenta líkur séu á því að það myndi stoppa fyrir ofan byggðina ef það færi af stað. Þarna séu aðeins um forvarnir að ræða. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, sýslumaður á Ísafirði, sagði í Morgunútvarpinu á Talstöðinni í morgun að steinarnir séu ekki hættulegir þar sem þeir sitji núna en ef einhver hreyfing verði í fjallinu, t.a.m. aurskriður, gætu steinarnir farið af stað og endað niðri í byggð. Því var ákveðið að sprengja steinana í öryggisskyni. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×