Innlent

Olíutankar fara af Hvaleyrarholti

Fyrsti olíutankurinn af sex á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði hefur verið rifinn. Gert er ráð fyrir að byrjað verði að taka grunna fyrir nýrri íbúðabyggð á næstu vikum. Olíudreifing var með hundrað ára leigusamning á lóðinni sem nú er undir olíutönkunum á Hvaleyrarholti en hefur nú selt byggingarétt á lóðinni til verktakafyrirtækisins Fjarðarás ehf. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir að hreinsa eigi svæðið og það séu mikil tímamót að sjá tankana fara. Þeir hafi verið á Hvaleyrarholtinu í 50 ár og hefðu getað verið önnur 50 ár að óbreyttu en það hafi tekist gott samkomulag milli Olíudreifingar og bæjarins um að breyta svæðinu í íbúðabyggð. Í stað tankanna er gert ráð fyrir 320 íbúðum í 5-6 hæða húsum. Þar af er áætlað að 120 íbúðir verði fyrir eldri borgara. Lúðvík segir byggð fara rísa í stað tankanna á næstu mánuðum. Hafist verður handa við grafa fyrir húsunum á næstu tveimur til fjórum vikum. Vitað er að lítil magn af olíu hefur smitast í jarðveginn og gæti því þurft að skipta um hann. Aðspurður hvort þjónustan sem fyrir sé í hverfinu nái að anna þessari viðbót segir Lúðvík að það hafi verið gengið út frá því að hin nýja byggð félli inn í svæðið í kring. Nýbúið sé að stækka barnaskólann á Hvaleyrarholtinu og þá sé líka horft til þess að hluti af byggðinni verði ætlaður eldri íbúum. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×