Innlent

Júlíus Vífill líklegur í toppslag

Líklegt er talið að Júlíus Vífill Ingvarsson gefi út yfirlýsingu í dag um að hann bjóði sig fram í efsta sæti lista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor. Þegar hafa Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúi og Gísli Marteinn Baldursson varaborgarfulltrúi boðið sig fram í efsta sæti, en prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verður fjórða og fimmta nóvember næstkomandi. Júlíus Vífill, sem hefur áður verið borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vildi ekki staðfesta við Fréttablaðið í gær að hann mundi gefa kost á sér í fyrsta sæti listans. "Ég ætlaði að gefa út yfirlýsingu í gær en þá kom nákomið fólk að máli við mig og vildi koma að fleiri sjónarmiðum. Ég er þakklátur þeim sem sýna þessu áhuga. Ég mun að líkindum gefa eitthvað út um hugsanlegt framboð mitt í dag," segir Júlíus Vífill. Guðlaugur Þór Þórðarson borgarfulltrúi og þingmaður hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér á framboðslista Sjáflstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Í Morgunblaðinu í dag lýsir hann yfir stuðningi við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson í efsta sæti listans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×